Erlent

Kastrup nánast tómur áður en landamærunum verður skellt í lás

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Myndin er úr safni.
Frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Fátt hefur verið um manninn á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn í morgun en strangar ferðatakmarkanir taka gildi í Danmörku á hádegi að dönskum tíma. Flugferðir frá Íslandi til Kaupmannahafnar eru enn á áætlun en þeim sem hafa ekki gilda ástæðu til inngöngu verður vísað frá.

Danska ríkisstjórnin tilkynnti um að hún ætlaði svo gott sem að loka landamærunum að landinu til að hefta útbreiðslu kórónuveiruheimsfaraldursins í gær. Ferðabannið tekur gildi klukkan tólf að dönskum tíma, klukkan ellefu að íslenskum. Það gildir til 13. apríl.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Isavia fór vél Icelandair á leið til Kaupmannahafnar í loftið um tuttugu mínútum á undan áætlun á áttunda tímanum í morgun. Seinni ferð flugfélagsins til Kaupmannahafnar um miðjan dag og ferð SAS fyrir hádegið eru enn sagðar á áætlun.

Á heimasíðu Icelandair kemur fram að skilningur félagsins sé að danskir ríkisborgarar komist ávallt inn í landið og sömuleiðis þeir sem búa eða vinna í Danmörku. Þó megi búast við töfum við landamæraeftirlit. Öðrum, sem ekki hafa gilda ástæðu til að koma til Danmerkur, verði vísað frá.

Hamstra bjór og ropvatn á landamærunum

Danska ríkisútvarpið DR segir að tómlegt hafi verið um að litast á Kastrup-flugvelli í morgun þrátt fyrir að ferðabannið væri þá ekki enn komið í gildi.

Tíðindin af ferðabanninu urðu mörgum Dönum jafnframt tilefni til að streyma í Fleggaard, verslun á landamærunum að Þýskalandi, til að gera innkaup áður en landamærunum verður skellt í lás.

„Við heyrðum jú að landamærunum yrði lokað í dag svo við hugsuðum að við yrðum að koma hingað niður eftir og fylla á með bjór og ropvatni. Þetta stendur jú yfir páska svo maður verður að fylla á birgðirnar,“ segir Lars Hansen, einn þeirra sem gerðu sér ferð til Fleggaard í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Danir loka landinu

Dönskum landamærum verður lokað á hádegi á morgun til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×