Erlent

Allt klárt fyr­ir tím­a­mót­a­g­eims­kot

Samúel Karl Ólason skrifar
Crew Dragon á skotpalli í Flórída.
Crew Dragon á skotpalli í Flórída. Vísir/SpaceX

Allt virðist klárt fyrir fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum í tæpan áratug. Stefnt er á að skjóta Crew Dragon geimfari SpaceX á loft á morgun og á að nota Falcon 9 eldflaug fyrirtækisins til að koma geimfarinu til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Veðrið gæti þó sett strik í reikninginn.

Geimfararnir Bob Behnken og Dough Hurley munu verða sendir til geimstöðvarinnar en verkefnið ber heitið Demo-2 og er síðasti liðurinn í því að Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, heimili SpaceX að senda fleiri geimfara til geimstöðvarinnar.

NASA segir að nýtt skeið mannaðra geimferða sé að hefjast.

Demo-1 var þegar Crew Dragon var skotið til geimstöðvarinnar í mars í fyrra. Þá var enginn um borð nema gínan Ripley.

Áætlað er að Behnken og Hurley verji einum til fjórum mánuðum um borð í geimstöðinni og veltur það á því hve vel geimskotið heppnast og hve fljótt hægt verður að skjóta næsta hópi geimfara á loft. Það geimskot ber heitið Crew-1.

Bob Behnken og Dough Hurley í geimbúningum SpaceX.Vísir/SpaceX

Skotglugginn svokallaði opnast klukkan hálf níu annað kvöld, að íslenskum tíma. Gangi geimskotið ekki eftir stendur til að gera aðra tilraun á laugardagskvöldið og þá þriðju á sunnudagskvöldið.

Sýnt verður frá geimskotinu í beinni útsendingu. Meðal annars á Vísi.

Eins og staðan er núna er í dag áætla sérfræðingar að 40 prósent líkur séu á því að veður muni koma í veg fyrir geimskotið á morgun.

Umrætt geimskot er merkilegt fyrir nokkrar sakir en ein af þeim er að fer fram á Launch Complex 39A í Flórída. Það er sami staður og notaður var til að skjóta mönnum til tunglsins. Þar var einnig fyrstu geimskutlunni skotið á loft og þeirri síðustu árið 2011.

Í gær var gerð tilraun með hreyfil eldflaugarinnar og um helgina voru gerðar æfingar fyrir geimskotið á morgun og í gærkvöldi var gefið grænt ljós á geimskotið. Nú er bara að bíða og vonast eftir því að veðrið komi ekki í veg fyrir geimskotið.

„Öll teymin eru klár og við höldum áfram að markmiði okkar. Nú er það eina sem okkur vantar að læra að stjórna veðrinu,“ sagði Kathy Lueders frá NASA á blaðamannafundi í gær.

Notkun Crew Dragon er fyrsti liðurinn í þeirri áætlun Bandaríkjanna að senda geimfara til Mars árið 2024. Nota á tunglið sem skotpall til mars og lengra út í sólkerfið.

Á leiðinni til geimstöðvarinnar munu þeir Behnken og Hurley ná tæplega 30 þúsund kílómetra hraða. Þá munu þeir verja 19 klukkustundum í að ná til geimstöðvarinnar en hluta þess tíma verður varið til að kanna getu og virkni Crew Dragon.

Um sólarhring eftir geimskotið sjálft munu þeir fara um borð og hitta fyrir þá þrjá geimfara sem eru þar nú þegar.

Crew Dragon er hannað til að tengjast geimstöðinni sjálfkrafa en Behnken og Hurley munu fylgjast náið með og grípa inn í ef þeir þurfa.

Þegar verkefninu lýkur munu geimfararnir fara aftur um borð og falla til jarðar. Áætlað er að þeir lendi í hafinu undan ströndum Flórída.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.