Erlent

For­setinn biðst af­sökunar á að hafa verið á veitinga­stað eftir lokun

Sylvía Hall skrifar
Forsetahjónin sátu á ítölskum veitingastað með vinum sínum eftir lokunartíma. Reglur í landinu kveða á um að veitingastaðir og kaffihús loki klukkan 23.
Forsetahjónin sátu á ítölskum veitingastað með vinum sínum eftir lokunartíma. Reglur í landinu kveða á um að veitingastaðir og kaffihús loki klukkan 23. Vísir/Getty

Austurríski forsetinn Alexander Van der Bellen hefur beðist afsökunar á því að hafa verið lengur inni á veitingastað en reglur um opnunartíma í landinu kveða á um. Tilmæli yfirvalda miða við að veitingastaðir og kaffihús megi ekki vera opin lengur en til 23 á kvöldin eftir að hafa fengið að opna aftur í vikunni þegar útgöngubanni var aflétt.

Greint er frá þessu á vef BBC.

Lögregla hafði afskipti af forsetanum á útisvæði ítalsks veitingastaðar í höfuðborginni Vín eftir lokunartíma. Hann segist hafa verið utan við sig á meðan hann var á spjalli við vini sína, en þetta var í fyrsta sinn sem hann fór út eftir útgöngubann að hans sögn. Hann segir þó hegðunina vera mistök af sinni hálfu.

„Ég fór út í fyrsta sinn eftir útgöngubann með tveimur vinum og eiginkonu minni. Við vissum ekki hvað tímanum leið á meðan við spjölluðum,“ skrifaði Van der Bellen á Twitter.

Veitingastaðurinn gæti átt yfir höfði sér sekt vegna málsins en eigandi staðarins segist hafa fylgt öllum reglum og lokað klukkan 23 þegar síðustu drykkir voru bornir fram. Hann hafi haldið að þeir gestir sem fyrir voru inni mættu vera þar áfram.

Van der Bellen segist axla ábyrgð á því ef veitingastaðurinn þarf að sæta einhverjum viðurlögum vegna málsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.