Enski boltinn

Solskjær styður það að aflýsa leikjum í ensku úrvalsdeildinni út af kórónuveirunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær skilur það vel ef menn taka þá ákvörðun að aflýsa tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirunnar.
Ole Gunnar Solskjær skilur það vel ef menn taka þá ákvörðun að aflýsa tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirunnar. Getty/Jan Kruger

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið hans styðji það að öllum leikjum í ensku úrvalsdeildinni og Evrópukeppnunum verði aflýst sé það rétta leiðin að mati sérfræðinga í slíkum málum.

Knattspyrnustjóri Manchester United var spurður út í framhaldið á þessum óvissu tímum á blaðamannafundi fyrir Evrópudeildarleik liðsins á móti austurríska liðinu LASK Linz.

Leikur LASK Linz í kvöld fer fram fyrir luktum dyrum en Austurríkismennirnir tóku þá ákvörðun að banna áhorfendur í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Solskjær var spurður af því hvort hann styðji það að sett yrði algjör bann við fótboltaleikjum, bæði í Englandi og í Evróði.

„Ég myndi skilja algjört bann undir þessum kringumstæðum,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Það er auðvitað undir sérfræðingunum komið að ákveða slíkt og aðalmálið er heilsa almennings. Við munum styðja þá ákvörðun sem verður tekin,“ sagði Solskjær.

„Við vitum ekki hvað mun gerast. Við verðum að reyna að gera það besta í stöðunni. Fótboltinn er fyrir stuðningsmennina og án þeirra þá erum við ekkert hvort sem er. Leikurinn á alltaf að vera fyrir þá. Fótboltinn er ennþá í sjónvarpinu en þetta gæti allt breyst á morgun eða eftir tvær vikur,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

Linz segir að félagið tapi einni milljón evra, 146 milljónir íslenskra króna, á þeirri ákvörðun austurrískra stjórnvalda að setja áhorfendabann í landinu. Það var líka mjög sárt fyrir knattspyrnuáhugamenn í Linz að missa að tækifærinu að sjá stórlið eins og Manchester United koma í heimsókn.

Um 900 stuðningsmenn Manchester United voru á leiðinni til Austurríkis og margir þeirra voru komnir þangað þegar fréttist af banninu.

Seinni leikurinn fer síðan fram á Old Trafford í næstu viku en engin ákvörðun hefur verið tekið hvort áhorfendur verða leyfðir þá eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×