Erlent

6.700 skráð dauðsföll af völdum Covid-19 í Guayas-héraði í Ekvador í apríl

Atli Ísleifsson skrifar
Guayaquil er þéttbýl borg þar sem stór hluti íbúa lifir undir fátæktarmörkum.
Guayaquil er þéttbýl borg þar sem stór hluti íbúa lifir undir fátæktarmörkum. EPA

Skráð dauðsföll af völdum Covid-19 í Ekvador eru nú 403, en samkvæmt nýjum tölum frá einu héraða landsins virðast þúsundir hafa látist.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar segir að 6.700 manns hafa látist í Guayas-héraði þar sem af er apríl. Á sama tímabili hafa að jafnaði þúsund manns látist í héraðinu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Guayaquil, fjölmennustu borg landsins, er að finna í Guayas-héraði, en kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Guayas sérstaklega grátt samanborið við önnur héruð landsins.

Fréttir hafa borist af því að íbúar hafi þurft að bíða í allt að fimm daga eftir að fulltrúar yfirvalda sæki lík látinna. Þannig hafa margir þurft að bregða á það ráð að geyma lík aðstandenda í lökum eða pokum á götum úti.

Samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Ekvador hafa 14.561 látið lífið í Guayas-héraði frá upphafi marsmánaðar, þar sem skráð dauðsföll eru að jafnaði tvö þúsund í mánuði.

Otto Sonnenholzer, varaforseti Ekvador, baðst fyrr í mánuðinum afsökunar á hægum viðbrögðum yfirvalda við heimsfaraldrinum.

Guayaquil er þéttbýl borg þar sem stór hluti íbúa lifir undir fátæktarmörkum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×