Erlent

Danir loka skólum og vinnustöðum vegna kórónuveirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Vísir/getty

Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að loka skólum og vinnustöðum í landinu vegna kórónuveirunnar. Þetta tilkynnti forsætisráðherra Danmörkur, Mette Frederiksen, á blaðamannafundi í kvöld.

Alls eru nú 514 staðfest kórónuveirusmit í Danmörku og veiran breiðist hratt út, að því er fram kom á fundinum. Þar af liggja tíu inni á sjúkrahúsi og tveir eru alvarlega veikir.

Nú hefur verið ákveðið að grípa til afar róttækra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar í Danmörku. Þannig verður öllum skólum, dagheimilum og öðrum menntastofnunum lokað í tvær vikur frá næsta föstudegi.

Þá verður vinnustöðum á vegum hins opinbera lokað og vinnustaðir á opinberum markaði hvattir til að láta starfsfólk sitt vinna að heiman. Aðeins þeir sem sinna svokölluðum nauðsynlegum störfum, svo sem heilbrigðisstarfsmenn, lögreglumenn og slökkviliðsmenn, munu starfa áfram með hefðbundnum hætti.

Ríkisstjórnin hefur jafnframt komið á samkomubanni fyrir fleiri en þúsund manns. Þá hefur Dönum jafnframt verið ráðlagt að aflýsa samkomum þar sem fleiri en hundrað koma saman.

Fjölmörgum viðburðum hefur verið frestað eða aflýst á Íslandi síðustu daga vegna kórónuveirunnar. Yfirvöld hafa ekki komið á samkomubanni hér á landi en í tilkynningu frá almannavörnum í dag kom þó fram að ekki sé útilokað að gripið verði til slíkra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×