Erlent

Hafa fundað leynilega vegna kórónuveirunnar síðan í janúar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mike Pence (fyrir miðju) fer fyrir aðgerðarhóp Bandaríkjastjórnar í viðbrögðum við COVID-19.
Mike Pence (fyrir miðju) fer fyrir aðgerðarhóp Bandaríkjastjórnar í viðbrögðum við COVID-19. Vísir/Getty

Embættismönnum innan heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna hafa borist tilmæli um að halda því sem fram fer á fundum sínum um COVID-19 kórónuveiruna við háttsetta aðila í stjórnkerfinu leyndu. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir fjórum embættismönnum úr ríkisstjórn Donalds Trump. Þá er sagt að leynilegir fundir um stöðu mála hafi farið fram síðan um miðjan janúar síðastliðinn.

Tilmælin eru í umfjöllun Reuters sögð óvenjulegt skref sem hafi heft upplýsingaflæði og torveldað tilraunir stjórnvalda í Bandaríkjunum til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.

Embættismennirnir sem Reuters ræddi við, og eru ekki nefndir á nafn í umfjölluninni, segja að tugir leyndra funda um umfang útbreiðslunnar, sóttkví og takmarkanir á ferðalögum hafi farið fram frá miðjum janúar. Fundirnir eru sagðir hafa farið fram í háleynilegu öryggisherbergi í heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna.

Starfsfólki ráðuneytisins sem hefur ekki sérstaka öryggisheimild hefur þannig verið meinaður aðgangur að fundunum, sem sumir hverjir voru myndbandsfundir.

„Það er afar mikilvægt fólk sem ekki hefur slíkar heimildir sem gat ekki verið viðstatt fundina,“ hefur Reuters eftir einum heimildarmanna sinna, sem segir einnig að Öryggisráð Bandaríkjanna (NSC) hafi fyrirskipað þá leynd sem ríkir yfir efni fundanna.

Krafan um að efni fundanna verði ekki opinbert er þannig talin hafa aftrað viðbragðsaðgerðum við útbreiðslu veirunnar. Þegar þetta er skrifað hafa 31 látist af völdum COVID-19, og eru um 970 manns smituð.

John Ullyot, talsmaður Öryggisráðs Bandaríkjanna, sagði við Reuters að ráðið hefði frá fyrsta degi haft gagnsæi að leiðarljósi, í málum tengdum kórónuveirunni og viðbrögðum við útbreiðslu hennar.

„Ríkisstjórnin hefur dregið úr skriffinnsku og sett fordæmi um allan heim í vernd sinni á bandarísku þjóðinni, með Donald Trump forseta í fararbroddi,“ er haft eftir Ullyot.

Trump Bandaríkjaforseti lét á dögunum skipa sérstakan aðgerðahóp vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í Bandaríkjunum. Varaforseti hans, Mike Pence, leiðir þann hóp og heldur blaðamannafundi um stöðu mála á degi hverjum.


Tengdar fréttir

Covid-19 skilgreint sem heimsfaraldur

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint útbreiðslu Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, sem heimsfaraldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×