Erlent

Aldrei fleiri smit greinst á heimsvísu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO. EPA/SALVATORE DI NOLFI

Forsvarsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, sögðu í dag að á milli daga hafi stofnuninni borist tilkynningar um rúmlega hundrað þúsund ný tilfelli nýju kórónuveirunnar á heimsvísu. Þau hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring og heildarfjöldinn nálgast nú fimm milljónir.

Alls er um að ræða 106 þúsund ný smit og sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, að heimurinn ætti langt í land með að ná tökum á faraldrinum.

Hann bætti við að nærri því tveir þriðju allra smitanna hafi greinst í einungis fjórum ríkjum, án þess þó að taka fram hvaða ríki um væri að ræða. Þau fjögur ríki þar sem flestir eru smitaðir, svo vitað sé, eru Bandaríkin, Rússland, Brasilía og Bretland.

Ghebreyesus tók einnig fram á blaðamannafundi í dag að hann hefði áhyggjur af fjölgun smitaðra í fátækari ríkjum heimsins.

Eins og bent er á í umfjöllun Guardian hefur dregið verulega úr fjölgun smita í Evrópu en það sama er ekki upp á teningnum í Suður-Ameríku. Þar fer smituðum hratt fjölgandi og er víða lítið skimað fyrir Covid-19.

Ghebreyesus sagði á fundinum að honum hefði borist bréf frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Hann vildi ekki fara nánar út í það að öðru leyti en að verið væri að skoða það.

Trump hefur gagnrýnt stofnunin harðlega og hefur hótað því að hætta fjárveitingum alfarið til hennar. Meðal annars hefur hann sakað WHO um að ganga erinda kínverskra stjórnvalda.

Búið er að tilkynna að viðbrögð WHO við upphafi faraldursins verði skoðuð nánar og farið í saumana á þeim. Ghebreyesus sagði að fáir kölluðu meira eftir gagnsæi en WHO. Það væri nauðsynlegt að skoða viðbrögðin hann sagði að sú skoðun yrði ítarleg.

Hann vildi þó ekki segja hvenær hún muni fara fram.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×