Erlent

Þúsundum gert að yfirgefa heimili sín vegna flóða

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gríðarlegir vatnavextir eru á svæðinu.
Gríðarlegir vatnavextir eru á svæðinu. Vísir/AP

Um tíu þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Michigan-ríki í Bandaríkjunum. Ástæðan eru gríðarlegir vatnaxextir í miðju ríkinu. Ríkisstjóri Michigan hefur varað við því að vatnshæð í borginni Midland gæti náð allt að 2,7 metrum.

Þetta er í annað sinn á sólarhring sem fjölskyldum sem búa við bakka Tittabawassee-árinnar og nálægum stöðuvötnum í Midland-sýslu hefur verið gert að yfirgefa heimili sitt. Í dag voru götur, bílastæði og aðrir almenningsstaðir í miðbæ Midland-borgar í kafi.

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur ráðlagt fólki í grennd við ána að koma sér í skjól, eftir að tvær stíflur hennar brustu. Tilskipanir um að svæðið skuli rýmt koma í kjölfar skipana um að fólk skuli halda sig heima til þess að draga úr hættunni á útbreiðslu kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19.

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, segir að þau 42 þúsund sem búa í borginni Midland, séu í sérstaklega mikilli hættu.

„Á næstu 12 til 15 tímum gæti miðbær Midland verið undir allt að 2,7 metrum af vatni. Við búumst við fordæmalausri vatnshæð á svæðinu,“ hefur AP-fréttastofan eftir henni.

Hér að neðan má sjá loftmyndir af flóðasvæðinu. Myndirnar eru teknar af bandarísku sjónvarpsstöðinni WXYZ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×