Erlent

Mót­mælendur í Íran kröfðust af­sagnar æðstu em­bættis­manna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Að mestu var um háskólanema að ræða og voru mótmælin brotin upp af lögreglu.
Að mestu var um háskólanema að ræða og voru mótmælin brotin upp af lögreglu. Vísir/AP

Fjölmenn mótmæli fóru fram í Íran í gærkvöld þar sem krafa var um afsagnir æðstu embættismanna ríkisins. Sendiherra Bretlands í Íran var handtekinn á sama tíma grunaður um að hafa hvatt til mótmælanna.

Mótmælin fóru fram í írönsku borginni Teheran í gærkvöld, en þau áttu sér stað eftir minningarathöfn vegna flugslyssins sem varð 176 manns að bana aðfaranótt miðvikudags. Mótmælendur kölluðu eftir afsögnum æðstu embættismanna ríkisins eftir að stjórnvöld í landinu viðurkenndu að úkraínska farþegaþotan hafi verið skotin niður fyrir mistök.

Að mestu var um háskólanema að ræða og voru mótmælin brotin upp af lögreglu.

Ríkissjónvarp Íran sagði boðskap mótmælenda vera róttækan og skaðlegan. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, skrifaði færslur á Twitter í gær þar sem hann hvatti stjórnvöld í Íran til að brjóta ekki upp mótmælin og leyfa fólki að mótmæla friðsamlega. Einnig kom hann þeim skilaboðum áleiðis til íbúa Írans að hann hafi staðið með þeim síðan hann tók við forsetaembættinu.

Þá var sendiherra Bretlands í Íran handtekinn í gærkvöld en látinn laus skömmu síðar. Samkvæmt breska fjölmiðlinum Daily Mail var hann handtekinn grunaður um að hafa hvatt til mótmælanna.

Utanríkisráðherra Bretlands, Dominic Raab, sagði handtökuna tilhæfulausa og brot á alþjóðalögum.


Tengdar fréttir

Handtóku sendiherra Breta í Íran

Macaire var í haldi íranskra yfirvalda í þrjá klukkutíma, að sögn breskra yfirvalda. Hann og aðrir starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa yfirgefið athöfnina þegar mótmæli fóru að brjótast út.

Mörgum spurningum ósvarað vegna flugvélarinnar

Embættismenn í Úkraínu segja að Íranar hefðu mögulega aldrei viðurkennt sök ef úkraínskir rannsakendur hefðu ekki fundið ummerki sprengibrota á braki úr flugvélinni.

Úkraína vill skaðabætur og ítarlega rannsókn

Forseti Úkraínu kallaði í yfirlýsingu sinni í dag að Íran hefji ítarlega rannsókn á því að úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður af íranska hernum skömmu eftir brottför frá Tehran.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.