Erlent

„Bóluefni má ekki bara vera fyrir þau ríku“

Andri Eysteinsson skrifar
Andrew Cuomo er ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo er ríkisstjóri New York. Getty/Al Bello

Bóluefnið verður að vera aðgengilegt fyrir alla. Við getum ekki látið stöðuna verða þá að eingöngu þau ríku geti verið bólusett vegna þess að eitt fyrirtæki eigi réttinn að framleiðslu bóluefnisins,“ sagði Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York á blaðamannafundi sínum vegna faraldurs kórónuveirunnar. Reuters greinir frá.

Cuomo fjallaði um mikilvægi þess að hægt yrði að dreifa bóluefninu eftir að fregnir bárust af góðum árangri lyfjatæknifyrirtækisins Moderna í þróun bóluefnis.

New York ríki hefur farið hvað verst út úr faraldrinum í Bandaríkjunum en rúmlega 28.551 hafa látist í New York af völdum veirunnar.

Á blaðamannafundinum gagnrýndi Cuomo einnig ríkisstjórn Bandaríkjanna. „Þú verður að vita hvað þú ert að gera, ekki bara líta út fyrir það eða hljóma þannig,“ sagði Cuomo án þess að nefna nokkurn á nafn.

Talið er þó líklegast að Cuomo hafi beint orðum sínum beint að forsetanum sjálfum þegar hann sagði „Þú verður að vera snjall. Þú munt ekki ná að tísta þig í gegnum faraldurinn.“

Cuomo sagði þá einnig að vegna minningarathafna um látna hermenn um komandi helgi verði samkomubann rýmkað tímabundið og mega 10 koma saman um helgina. Þá hefur opnun hluta ríkisins verið hafin en miðpunktur faraldursins New York borg er ekki þar á meðal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×