Erlent

Skutu þremur eldflaugum á loft

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Suður-Kóreu horfa á frétt um eldflaugaskot nágranna þeirra í norðri. Myndefnið er ekki frá þessu tiltekna eldflaugaskoti.
Íbúar Suður-Kóreu horfa á frétt um eldflaugaskot nágranna þeirra í norðri. Myndefnið er ekki frá þessu tiltekna eldflaugaskoti. AP/Ahn Young-joon

Her Norður-Kóreu skaut í nótt þremur skammdrægum eldflaugum á loft. Viðræður einræðisríkisins og Bandaríkjanna og eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlanir Norður-Kóreu eru engar þessa dagana og hafa forsvarsmenn hersins heitið frekari vopnatilraunum.

Herforingjaráð Suður-Kóreu segir eldflaugunum hafa verið skotið yfir Austurhaf í átt að Japan en allar tilraunir einræðisríkisins og eldflaugaskot eru í trássi við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Norður-Kórea hefur á undanförnum árum verið beitt umfangsmiklum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum vegna tilrauna með kjarnorkuvopn og eldflaugar, sem eiga að bera þessi kjarnorkuvopn og það mögulega til Bandaríkjanna.

Síðast skutu Kóreumenn eldflaugum á loft fyrir viku síðan og þá tveimur skammdrægum. Fyrir það hafði engri eldflaug verið skotið á loft um þó nokkuð skeið. Í fyrra voru þrettán tilraunaskot framkvæmd.

Um áramótin hétu Norður-Kóreumenn því að gera tilraun með nýja tegund vopns á næstunni. Sérfræðingar segja mögulegt að þar sé um að ræða þróaða tegund langdrægra eldflauga sem gætu borið kjarnorkuvopn, eða nýja eldflaug sem hægt sé að skjóta úr kafbáti.

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, vill losna við viðskiptaþvinganir áður en viðræður um afvopnun hefjast á ný. Bandaríkin segja það hins vegar ekki koma til greina. Sérstaklega á sama tíma og Norður-Kórea ógni nágrönnum sínum og haldi ólöglegum vopnatilraunum áfram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×