Mikið magn af olíumenguðum jarðvegi fannst við framkvæmdir í Elliðaárdal við Rafstöðvarveg á fimmtudag. Verktaki á vegum Veitna rakst á „mannvirki“ þegar hann var við framkvæmdir sem talið er vera gamall, steyptur olíutankur. Í tanknum fannst olíumengaður jarðvegur í aðeins 15-20 metra fjarlægð frá bakka Elliðaáa.
Á vef Veitna kemur fram að vitað hafi verið til þess að mögulega gæti fundist mengaður jarðvegur á svæðinu en ekkert í líkingu við það sem fannst á fimmtudag. „Olíuslys á þessum stað getur verið grafalvarlegt mál fyrir viðkvæmt lífríkið í dalnum og ánum og var því brugðist hratt við og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kallað á staðinn.“
Unnið var að því á fimmtudag og föstudag að koma jarðveginum frá svæðinu og til förgunar í Sorpu. Verkið tafðist þar sem ekki var hægt að fara með jarðveginn í Sorpu seint á fimmtudag til öruggrar förgunar. Talið er að kostnaður af atvikinu hlaupi á milljónum króna.