Erlent

Næstum tvö hundruð í sótt­kví eftir mæðra­dags­messu

Sylvía Hall skrifar
Presturinn taldi óhætt að halda messu í ljósi fárra smita í sýslunni.
Presturinn taldi óhætt að halda messu í ljósi fárra smita í sýslunni. Vísir/Getty

Yfir 180 kirkjugestum var skipað að fara í sóttkví eftir að smitaður einstaklingur reyndist hafa verið í sömu messu þeir. Um var að ræða mæðradagsmessu í Butte-sýslu í norðurhluta Kaliforníu en einstaklingurinn greindist með kórónuveiruna stuttu eftir messuna.

Presturinn Michael Jacobsen staðfesti í samtali við Washington Post að messan hafi verið í sínum söfnuði, Palermo Bible Family Church. Messan fór fram þvert á tilmæli yfirvalda í ríkinu en stórar samkomur eru bannaðar til þess að sporna gegn kórónuveirufaraldrinum.

Jacobsen sagðist ekki hafa átt í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld vegna athafnarinnar en hann hafði nú þegar þurft að aflýsa páskahelgistund vegna faraldursins. Hann hafði trúað því að það væri óhætt að halda messu nú í ljósi þess hversu fá smit hefðu komið upp í sýslunni.

Um 200 þúsund manns búa í Butte-sýslu og eru um 22 virk smit á svæðinu.

„Ég þurfti að aflýsa páskafögnuðinum og eru það fyrstu páskarnir síðan ég fékk Jesú inn í mitt líf þar sem ég gat ekki tekið þátt í helgistund. Það var mjög erfitt,“ sagði Jacobsen og bætti við að kirkjan væri nauðsynlegur hluti af lífi sínu.

Heilbrigðisyfirvöld í ríkinu hafa varað við því að brjóti fólk gegn fyrirmælum með þessum hætti gæti það leitt til þess að grípa þurfi til harðari aðgerða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×