Erlent

Tengja tvö dauðs­föll barna í Evrópu við nýja barna­sjúk­dóminn

Sylvía Hall skrifar
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur biðlað til heilbrigðisstarfsfólks að vera vakandi fyrir einkennum sjúkdómsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur biðlað til heilbrigðisstarfsfólks að vera vakandi fyrir einkennum sjúkdómsins. Vísir/Getty

230 börn hafa veikst af nýjum dularfullum barnasjúkdómi og tvö hafa látist í Evrópu. Sjúkdómurinn er talinn tengjast kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Reuters greinir frá.

Einkenni sjúkdómsins eru sögð líkjast Kawasaki-sjúkdómnum sem er bólgusjúkdómur sem leggst fyrst og fremst á börn. Þannig myndar sjúkdómurinn óhóflegt bólguviðbragð í líkamanum og börn geta orðið afar lasin. Í alvarlegustu tilfellunum getur sjúkdómurinn dregið börn til dauða.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur biðlað til heilbrigðisstarfsfólks að vera vakandi fyrir sjúkdómnum en áréttaði þó að það væri ekkert sannað um bein tengsl við kórónuveiruna. Dæmi væru um að sjúkdómurinn hefði komið upp í börnum sem reyndust ekki vera með veiruna.

Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir, sagði í samtali við Vísi fyrr í mánuðinum að fylgst væri náið með gangi mála en sjúkdómurinn hefur meðal annars greinst í börnum á Bretlandseyjum, Spáni, Ítalíu og í Hollandi. Þá hafa þrjú dauðsföll barna í Bandaríkjunum verið tengd við sjúkdóminn.

„Þetta er eitthvað sem stærri barnaspítalar úti í heimi hafa verið að sjá og það er í raun algjör óvissa um hvort þetta tengist Covid yfir höfuð. En þetta eru nokkur tilfelli sem hafa komið upp,“ sagði Valtýr í samtali við Vísi.

„Þannig að það er svo sem alveg mögulegt að þetta tengist því að hafa fengið Covid-19, jafnað sig af því og svo kemur þetta í kjölfarið.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×