Innlent

Eggjum kastað í Vegan-búðina: „Sorglega fyrirsjáanlegt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einn eggjabakki var tæmdur á glerið.
Einn eggjabakki var tæmdur á glerið. Mynd/Aðsend

Vegan-búðin í Faxafeni í Reykjavík var grýtt eggjum í nótt. „Gríðarlega fyrirsjáanlegt,“ segir eigandi búðarinnar á Facebook.

Svo virðist sem að einhver óprúttinn hafi tekið sig til í  nótt og tæmt eins og einn eggjabakka á anddyri búðarinnar sem opnaði fyrir þremur vikum.

„Það hefur einhver fengið nóg af okkur í nótt,“ segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, eigandi búðarinnar. Hún segir ljóst að um táknrænan gjörning hafi verið um að ræða enda eru egg afurð dýra, eitthvað sem grænkerar leggja sér ekki til munns.

„Við erum ekkert eyðilögð yfir þessu persónulega en okkur finnst þetta mjög leiðinlegur symbólismi og erum kannski leið yfir því að fólk leggist svona lágt,“ segir Sæunn.

Þegar blaðamaður náði tali af Sæunni var hún að útvega sér græjur til þess að þrífa hin storknuðu egg af glerinu, en eggjarauðan- og hvítan hafa storknað í nótt.

Ekki geðslegt segir Sæunn.Mynd/Aðsend

„Okkur finnst þetta ekkert sérstaklega geðslegt,“ segir Sæunn sem er reyndar vön því að fá ýmsar hótanir, þó enginn hafi látið verða að neinu, fyrr en í nótt.

„Okkur hefur verið hótað ýmsu. Fólk hefur ætlað að vera með alls konar gjörninga, að mæta í loðfeldum og með kjöt og grilla dauð dýr í kringum okkur en það hefur aldrei neinn látið verða að neinu. Það hefur einhver fengið nóg af okkur í nótt.“

Hún segir að málið muni ekki ná lengra enda tjónið lítið, annað en tilfinningalegt. Þó muni verða settar upp öryggismyndavélar við anddyrið til að letja frekara eggjakast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×