Innlent

Eyjamenn undirbúa frestun íþróttamóta en vonast til að geta haldið Þjóðhátíð

Vésteinn Örn Pétursson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Vonir standa til að hægt verði að halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í byrjun ágústmánaðar.
Vonir standa til að hægt verði að halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í byrjun ágústmánaðar. Vísir/Vilhelm

ÍBV hefur hafið undirbúning við að fresta stórum fótboltamótum barna sem til stóð að halda í júní. Enn er þó haldið í vonina með að geta haldið Þjóðhátíð á réttum tíma að sögn framkvæmdastjóra íþróttafélagsins.

Orkumótið og Pæjumótið eru haldin árlega, um miðjan og lok júní, í Vestmannaeyjum. Mótin eru að jafnaði mjög vel sótt en um þúsund börn eru skráð til þátttöku í ár.

Hörður Orri Grettisson er framkvæmdastjóri íþróttafélagsins ÍBV.

„Við höfum að sjálfsögðu gert ráðstafanir til að geta seinkað mótunum fram á sumarið ef til þess kæmi. Við erum svo sem bara að bíða eftir nánari tilmælum um það hvernig útfærslur á þessu verði. En við höfum hafið undirbúning á því að fresta mótunum fram á sumarið. Við erum komin með dagsetningar í júlí sem myndu henta fyrir mótin.“

Hann segir að ráðstafanir varðandi Þjóðhátíð, sem öllu jöfnu fer fram um Verslunarmannahelgina, hafi verið ræddar.

„Já, já að sjálfsögðu. Við erum auðvitað bara með í maganum yfir ástandinu í landinu eins og svo margir aðrir. Okkur hefur ekki þótt ástæða til þess, enn sem komið er, til þess að hnika eitthvað út af okkar plönum með það. Það eru 110 dagar í þjóðhátíð og við virðumst vera á réttri leið með þessa veiru þannig við erum enn að halda í vonina að við getum haft eitthvað til að hlakka til þegar líður á sumarið. Að við getum hist í í Herjólfsdal fyrstu helgina í ágúst,“ segir Hörður Orri að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×