Erlent

Ísraeli ákærður fyrir njósnir á vegum Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísrael og Íran hafa verið erkifjendur í áratugi.
Ísrael og Íran hafa verið erkifjendur í áratugi. AP/Vahid Salemi

Ísraelskur maður hefur verið ákærður fyrir njósnir á vegum Íran og að undirbúa hryðjuverkaárásir. Maðurinn var handtekinn í síðasta mánuði og hafði hann verið í samskiptum við útsendara leyniþjónustu Íran. Öryggisstofnunin Shin Bet segir manninn hafa verið beðinn um að gera hryðjuverkaárásir í Ísrael, útvega upplýsingar um varnir landsins og möguleg skotmörk.

Hann var einnig beðinn um hugmyndir til að valda deilum og átökum í Ísrael og að finna ísraelska araba sem væru einnig tilbúnir til að vinna á vegum Íran. Þegar hann var handtekinn á maðurinn að hafa reynt að eyðileggja USB-drif og var hann sömuleiðis með dulkóðað samskiptatæki.

Þessi maður fór í nokkrar ferðir til útlanda og hitti hann útsendara Íran minnst tvisvar sinnum Shin Bet segir manninn hafa fengið þóknun, þjálfun, búnað og annað svo hann gæti betur nýst Íran í þessum ferðum.

Ísrael og Íran hafa verið erkifjendur um áratugaskeið en yfirvöld Íran neita til að mynda að viðurkenna tilvistarrétt Ísrael. Þá styður Íran hryðjuverkahópa og önnur samtök sem beita sér gegn Ísrael. Gonen Segev, fyrrverandi orkumálaráðherra Ísrael, var dæmdur í ellefu ára fangelsi í fyrra eftir að hann viðurkenndi að hafa njósnað fyrir Íran.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×