Erlent

Deila um neyðarlán og skuldir ESB-ríkja

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjármálaráðherra ESB funduðu í 16 klukkustundir án niðurstöðu.
Fjármálaráðherra ESB funduðu í 16 klukkustundir án niðurstöðu. EPA/STEPHANIE LECOCQ

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins funduðu í allan gærdag og í nótt um björgunarpakka fyrir verst stöddu ríki sambandsins. Þeir komust þó ekki að samkomulagi vegna deilna um skilyrði og formaður ráðherraráðsins, sem kallast evruhópurinn, frestaði frekari viðræðum fram á fimmtudag. Fundurinn hafði staðið yfir í sextán tíma þegar honum var frestað.

Samkvæmt heimildum Reuters komu deilur á milli ráðherra Ítalíu og Hollands í veg fyrir að samkomulag náðist.

Til stóð að ná samkomulagi um neyðarlán til ríkisstjórna og fyrirtækja. Deilurnar sneru þó um skilmála neyðarlána og það að sameina skuldir með útgáfu sérstakra skuldabréfa, samkvæmt frétt Politico.

Til stóð að samþykkja þrjár aðgerðir. Ein sneri að því að aðstoða fyrirtæki með því að hið opinbera greiddi hluta launa fólks. Önnur sneri að því að stofna 200 milljarða evra sjóð sem fyrirtæki í ESB gætu leitað til varðandi ódýr lán. Þriðja aðgerðin varðaði sjóð sem aðildarríki gætu leitað til varðandi ódýr lán.

Allir fjármálaráðherra ESB hefðu þurft að samþykkja aðgerðirnar en það tókst ekki.

Embættismenn frá Ítalíu vildu létta á eða fella niður ýmis skilyrði sem fylgja áðurnefndum lánum til ríkja. Ítalir vildu einnig gefa út sérstök skuldabréf og þar með sameina skuldir ríkja. Hollendingar og Þjóðverjar eru alfarið mótfallnir því og óttast að sitja eftir í súpunni ef skuldsett ríki ESB lenda í frekari vandræðum.

Deilur um sameiningu skulda hafa verið áberandi á milli suðrænna ESB-ríkja eins og Spánar og Ítalíu annars vegar og norrænna ríkja eins og Hollands og Þýskalands hins vegar, frá evrukrísunni svokölluðu í upphafi síðasta áratugar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.