Erlent

Boris John­son lagður inn á sjúkra­hús vegna kórónu­veirunnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Boris Johnson á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar.
Boris Johnson á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar. Getty/Leon Neal

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið lagður inn á sjúkrahús til að undirgangast athuganir. Tíu dagar eru nú síðan hann greindist með kórónuveiruna.

Talskona forsætisráðuneytisins segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að Johnson sé enn með einkenni veirusýkingarinnar og sé meðal annars með háan hita. 

Hann var lagður inn á sjúkrahús í Lundúnum nú undir kvöld að læknisráði og er innlögnin sögð vera varúðarráðstöfun. Forsætisráðherrann mun undirgangast venjubundnar athuganir og er reiknað með því að hann dvelji þar í nótt.

Á föstudag birti Johnson myndband á Twitter þar sem hann sagðist vera með minniháttar einkenni. Á laugardag greindi Carrie Symonds, ólétt unnusta hans, frá því á Twitter að hún hafi verið rúmliggjandi í viku með einkenni veirunnar. Hún hafði þá ekki enn farið í sýnatöku. 

Johnson hefur unnið heima frá því að tilkynnt var um smitið þann 27. mars síðastliðinn. Hann mun áfram leiða ríkisstjórnina og hvetur fólk til þess að fylgja tilmælum um félagsforðun. 

Forsætisráðherrann hefur verið duglegur að deila skilaboðum á samfélagsmiðlum eftir að hann fór í einangrun og stýrði fundi um viðbrögð þarlendra stjórnvalda við faraldrinum á föstudag í gegnum fjarfundarbúnað. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Dauðsföllum fjölgar um tæpan fjórðung í Bretlandi

684 hafa dáið vegna Covid-19 í Bretlandi á undanförnum sólarhring og er heildarfjöldi látinna nú í 3.605. Fjöldi látinna hefur verið að aukast síðustu daga og hefur aldrei verið hærri, eða 23 prósent.

Boris veikur af Covid-19 og fer í einangrun

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti rétt í þessu að hann hefði fengið jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. Hann sagði í myndskeiði á Twitter að hann hefði fengið mild einkenni Covid-19 sjúkdómsins á síðasta sólarhring. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.