Erlent

44 há­skóla­nemar smituðust í Mexíkó-ferð

Sylvía Hall skrifar
Frá Cabo San Lucas þar sem nemarnir fóru í frí.
Frá Cabo San Lucas þar sem nemarnir fóru í frí. Vísir/Getty

44 af sjötíu háskólanemum smituðust af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum í Mexíkó fyrir tveimur vikum. Nemarnir, sem stunda allir nám við Háskólann í Texas, höfðu ferðast til Mexíkó til þess að njóta vorfrísins.

Hópurinn fór í ferðina þrátt fyrir beiðnir stjórnvalda í Bandaríkjunum að fólk myndi ekki ferðast til útlanda að óþörfu. Þá hafði einnig verið biðlað til fólks að vera ekki að safnast saman í hópum þar sem fleiri en tíu væru til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar.

Umrædd ferð var harðlega gagnrýnd af mörgum, meðal annars af Dennis Bonnen, forseta þingsins í Texas, sem bað nemana einfaldlega um að „hætta að vera fífl“ og þroskast.

„Sama hvort þið haldið að þetta sé vandamál eða ekki, þá er þetta vandamál. Sama hvort þið haldið að þetta hafi áhrif á ykkur eða ekki, þá hefur þetta áhrif. Sannleikurinn er sá, að ef ég er háskólanemi sem ætlar í vorfrí til Mexíkó, þá er ég að hafa áhrif á mikinn fjölda fólks. Þroskist.“

Í frétt New York Times um málið segir að fleiri dæmi séu um að háskólanemar hafi farið í slíkar ferðir, þvert á tilmæli stjórnvalda. Þau hafi staðið í þeirri trú að ungt fólk væri ekki jafn líklegt til þess að smitast, en fjöldi smita hefur komið upp eftir slíkar ferðir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.