Erkifjendurnir Manchester United og Manchester City öttu kappi í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í dag en Man Utd freistaði þess að leggja Man City að velli öðru sinni í deildinni á þessari leiktíð því Man Utd vann fyrri deildarleik liðanna á Etihad leikvangnum í desember.
Franski sóknarmaðurinn Anthony Martial skoraði í fyrri leik liðanna og hann var aftur á skotskónum í dag því hann kom heimamönnum yfir eftir hálftíma leik. Martial skoraði þá eftir vel útfærða aukaspyrnu Bruno Fernandes.
Staðan í leikhléi 1-0 fyrir rauðliða.
Síðari hálfleikur fór að langmestu leyti fram á vallarhelmingi Man Utd þar sem Man City sótti án afláts en fann ekki leið framhjá þéttum varnarmúr heimamanna.
Á lokamínútu uppbótartíma fullkomnaði varamaðurinn Scott McTominay daginn fyrir stuðningsmenn Manchester United þegar hann nýtti sér slæm mistök Ederson.
Lokatölur 2-0 fyrir Manchester United.
Enn er Manchester rauð
