Innlent

Vill aðgerðir í atvinnumálum en samt ekki kísilverksmiðju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ kalla eftir aðgerðum ríkisvaldsins vegna gríðarlegs atvinnuleysis á Suðurnesjum og hafa boðað til íbúafundar á netinu síðdegis á morgun. Bæjarstjórinn segir þó ekki stemmningu fyrir því að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík verði endurræst. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Vegna samkomutakmarkana verður íbúafundurinn á facebook-síðu Reykjanesbæjar en atvinnuleysi í bænum mælist nú 28 prósent.

„Við höfum aldrei séð viðlíka tölur í atvinnuleysi eins og við erum að sjá núna. Við höfum oft séð það slæmt en aldrei eins og nú,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Hann rekur hvað flugstarfsemin á Keflavíkurflugvelli er gríðarlega stór þáttur í atvinnulífi Suðurnesja. Áætlað sé að rekja megi um 40 prósent af efnahag svæðisins til flugvallarins.

Bæjarstjórinn kallar eftir sértækum aðgerðum ríkisvaldsins. Hann nefnir framkvæmdir eins og tvöföldun Reykjanesbrautar, úrbætur á húsnæði sjúkrahússins og samgöngur innan svæðisins.

Í kreppunni eftir bankahrunið fyrir áratug sögðu stjórnmálamenn að kísilver í Helguvík yrði ísbrjóturinn í atvinnumálum Suðurnesja. Sjá hér í frétt Stöðvar 2 frá árinu 2011:

En þykir kísilverið núna álitlegur kostur? Eigandi þess, Stakksberg, dótturfélag Arion-banka, hefur kynnt áætlanir um að hefja þar endurbætur eftir áramót með það að markmiði að koma rekstrinum aftur í gang.

„Ég held ég tali nú fyrir hönd allavega meirihluta bæjarstjórnar; að það er engin sérstök stemmning fyrir endurreisn þessarar verksmiðju,“ svarar Kjartan bæjarstjóri.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Kynnir endurbætur á kísilverinu í Helguvík

Eigandi kísilversins í Helguvík, sem staðið hefur ónotað í þrjú ár, stefnir að því að hefja endurbætur á verksmiðjunni í byrjun næsta árs með það að markmiði að hún geti tekið til starfa á ný eftir tvö ár. Skýrsla um umhverfismat endurbótanna hefur verið auglýst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×