Erlent

Segir Obama hafa átt að halda kjafti

Samúel Karl Ólason skrifar
Mitch McConnell, Barack Obama og Donald Trump.
Mitch McConnell, Barack Obama og Donald Trump. Vísir/Epa

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir að Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefði ekki átt að gagnrýna Donald Trump, núverandi forseta, fyrir viðbrögð hans við heimsfaraldri nýju kórónuveirunnar og vegna inngripa hans í dómskerfi Bandaríkjanna. McConnell segir að Obama hefði átt að halda kjafti.

„Mér finnst það taktlaust, svo satt skal segja, að gagnrýna ríkisstjórn sem kemur á eftir þér,“ sagði McConnell í samtali við Löru Trump, tengdadóttur forsetans, sem sýnt var af forsetaframboði Trump.

„Þú fékkst þitt tækifæri, þú varst þarna í átta ár,“ sagði McConnell. Hann sagði eðlilegt að Obama væri ósammála því sem Trump væri að gera en vísaði til hefðar sem Bush-feðgarnir mynduðu, um að gagnrýna ekki þá sem taka við sem forsetar, og sagði að Obama hefði átt að fylgja henni. Það væri góð hefð.

Obama hefur nokkrum sinnum gagnrýnt Trump. Til að mynda þegar Trump felldi niður DACA og þegar Trump bannaði í fyrsta sinn fólki frá löndum þar sem múslímar eru í meirihluta að ferðast til Bandaríkjanna.

Sagði viðbrögðin óreiðukennd

Á fjarfundi með fyrrverandi starfsmönnum sínum í Hvíta húsinu sagði Obama að viðbrögð Trump við faraldrinum hafi verið óreiðukennd. Þeim ummælum var svo lekið til fjölmiðla.

Sjá einnig: Obama segir viðbrögð Trump við faraldrinum „óreiðukennd“

Obama hefur ekkert tjáð sig um það að Trump hafi ítrekað ranglega kennt forsetanum fyrrverandi um það hve illa faraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið niður á Bandaríkjunum. Meðal annars hefur Trump gagnrýnt Obama fyrir að hafa skilið eftir sig próf sem virkuðu ekki gegn Covid-19, sjúkdómnum sem varð til í lok síðasta árs.

McConnell sló á svipaða strengi og sagði að ríkisstjórn Obama hefði ekki skilið eftir neinar áætlanir eða birgðir og tól fyrir ríkisstjórn Trump varðandi mögulega faraldra sem þennan. Það er fjarri því að vera sannleikanum samkvæmt.

Fyrrverandi starfsmenn Obama í Hvíta húsinu hafa ítrekað sagt frá áætlunum sem skildar voru eftir og ekki var farið eftir. Þá voru reglugerðir sem Obama bjó til og áttu að nýtast í tilfellum sem um hér ræðir felldar niður. Árið 2015 stofnaði Obama sérstakt viðbragðsteymi gegn faröldrum innan þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna. Það ráð var fellt niður árið 2018 og meðlimir þess reknir eða færðir í aðrar stöður.

Þá hafði John Bolton tekið við sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump af Tom Bossert. Bossert hafði kallað eftir umfangsmiklum viðbragðsáætlunum við faröldrum og efnavopnaárásum. Ekkert varð af því.

Vill rannsaka Obama

Undanfarnar vikur hefur Trump ítrekað gefið í skyn að tilefni sé til að rannsaka störf Obama í Hvíta húsinu og jafnvel sakað forsetann fyrrverandi um að beita sér gegn framboði Trump.

Hann hefur varið miklum tíma í að ýta undir myllumerkið #Obamagate og sakaði Obama um helgina um að hafa framið „stærsta pólitíska glæp í sögu Bandaríkjanna“.

Þegar Trump var spurður að því hvaða glæp Obama átti að hafa framið sagði hann alla vita það, án þess þó að nefna það.

„Þið vitið hver glæpurinn er. Glæpurinn er öllum augljós, þið þurfið bara að lesa dagblöðin,“ sagði Trump.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.