Erlent

Alræmdur glæpaleiðtogi lést í fangelsi af völdum veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögregla hafði hendur í hári Escamilla árið 2008.
Lögregla hafði hendur í hári Escamilla árið 2008. Vísir/Getty

Moisés Escamilla May, alræmdur mexíkóskur glæpaleiðtogi, lést í fangelsi í Mexíkó á föstudag. Ástæðan var Covid-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran getur valdið.

Escamilla, sem var 45 ára þegar hann lést, var leiðtogi hóps innan glæpagengisins Los Zetas. Hópurinn sem hann leiddi starfaði að mestu í Cancún í Mexíkó, sem er vinsæll ferðamannastaður. Raunar var hann sá umsvifamesti á kókaínmarkaði á svæðinu, þar til lögreglu tókst að hafa hendur í hári hans árið 2008. Hann afplánaði 37 ára fangelsisdóm þegar hann lést. Dóminn hlaut hann meðal annars fyrir aðild sína að aftökum á 12 mönnum.

Escamilla er á vef breska ríkisútvarpsins BBC sagður hafa byrjað að finna fyrir erfiðleikum með öndun síðastliðinn miðvikudag. Hann lést tveimur dögum síðar, en mexíkósk stjórnvöld greindu ekki frá andláti hans fyrr en í dag.

Alls hafa 35 þúsund tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest í Mexíkó. Samkvæmt opinberum tölum hafa 3.645 manns látið lífið af völdum hennar.

Hafa varað við aðbúnaði í fangelsum

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að aðbúnaður í fangelsum rómönsku Ameríku, sem oft á tíðum er ansi slæmur, geti valdið því að kórónuveiran breiðist óáreitt út milli fanga og starfsmanna fangelsa. Þannig verði fangelsin eins konar gróðrarstía veirunnar.

Ástandið í fangelsum þessa heimshluta hefur valdið uppþotum meðal fanga í Venesúela, Kólumbíu og Perú. Fangar telja fangelsisyfirvöld ekki hafa gert nóg til þess að draga úr hættu á útbreiðslu veirunnar innan veggja fangelsanna.

Þá hafa mexíkósk lög sem veitt hafa ákveðnum hópi fanga sakaruppgjöf, til þess að draga úr álagi á fangelsi, mætt harðri gagnrýni aðgerðasinna sem telja að ekki sé nógu langt gengið til þess að tryggja öryggi fanga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×