Innlent

Gunnar óskar eftir athugun utanaðkomandi aðila

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Pálsson sendiherra Íslands í Brussel.
Gunnar Pálsson sendiherra Íslands í Brussel.

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, hefur óskað eftir því að utanaðkomandi aðili geri athugun á því hvort ómálefnaleg sjónarmið hafi verið í fyrirrúmi hjá utanríkisráðherra í tengslum við þær ákvarðanir sem ráðherra tók í mars og apríl síðastliðnum varðandi flutning Gunnars í starfi.

Ráðherra tók ákvörðun um að Gunnar myndi færast til í starfi innan utanríkisþjónustunnar. Hann færi frá Brussel og myndi gegna stöðu sendiherra á Indlandi.

Gunnar sagði í samtali við fréttastofu um þá ákvörðun að hann teldi hana eiga sér rót í ósætti sem skapaðist eftir að hann tók ákvörðun um að loka sendiráði Íslands í Brussel í mars síðastliðnum vegna kórónuveirunnar.

Hann taldi að óeðlileg afskipti hefðu verið höfð af stjórnun hans á sendiráðinu þegar gerðar voru athugasemdir við ákvörðun hans um að loka sendiráðinu.

Gunnar hafnaði flutningnum til Indlands og var í kjölfarið kallaður heim.

Fréttastofa sendi Gunnari fyrirspurn vegna málsins í dag þar sem hann er spurður hvort hann ætlaði að taka málið lengra. Í svarinu segir Gunnar að hafi óskað eftir athugun utanaðkomandi aðila. Hann vildi ekki svara hver sá utanaðkomandi aðili er og sagðist ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Sendi­herra Ís­lands í Brussel kallaður heim

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, hefur verið kallaður heim. Gunnar hefur verið mjög gagnrýninn á drög utanríkisráðherra um breytingar á því hvernig sendiherrar skuli skipaðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×