Erlent

Varaborgarfulltrúi staddur í Boston

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Diljá Ámundadóttir segir ástandið mjög spennuþrungið í Boston.
Diljá Ámundadóttir segir ástandið mjög spennuþrungið í Boston. Mynd/ AFP.
„Við erum staddar hérna í Beacon Hill, sem er hinum megin við ána frá því sem ástandið er sem mest," segir Diljá Ámundadóttir, varaborgarfulltrúi í samtali við Vísi. Diljá er ásamt vinkonu sinni í Boston, en þær voru á Fleetwood Mac tónleikum sem fóru fram í gær.

Þar er núna útgöngubann vegna þess að lögreglan leitar annars tilræðismannsins sem grunaður er um að hafa staðið að sprengingunum í Boston-maraþoninu á mánudaginn. Almenningssamgöngur hafa verið stöðvaðar í Boston, götum hefur verið lokað og verslunareigendur beðnir um að loka verslunum sínum. Maðurinn sem leitað er að er talinn vera með sprengiefni og önnur vopn á sér. Talið er að maðurinn sé nítján ára gamall og upprunalega frá Tsjetsjeníu. Bróðir hans var skotinn til bana fyrr í morgun en þeir hafa búið í Bandaríkjunum í um ár.

Diljá segir að þyrlur fljúgi stanslaust yfir svæðið þar sem hún er og reglulega heyrist sírenuvæl frá lögreglubílum. Þær hafi ekkert farið út í dag vegna útgöngubannsins, en þær skynja mjög þrungið andrúmsloft. Síðastliðna tvo daga hafi þær aftur á móti skynjað ákveðna yfirvegum og nánd á meðal fólks í borginni. Til dæmis hafi mátt skynja samhuginn á meðal fólks mjög sterkt í gær þegar tónlistarfólkið talaði um árásirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×