Erlent

Loka af bæ strangtrúaðra gyðinga þar sem kórónuveiran er talin mjög útbreidd

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar í hlífðarbúnaði handtaka þrjá menn sem fóru gegn tilmælum yfirvalda og fóru í bænahús í Bnei Brak.
Lögregluþjónar í hlífðarbúnaði handtaka þrjá menn sem fóru gegn tilmælum yfirvalda og fóru í bænahús í Bnei Brak. AP/Ariel Schalit

Lögreglan í Ísrael hefur lokað af bænum Bnei Brak, þar sem margir strangtrúaðir gyðingar búa, vegna þess hve nýja kórónuveiran hefur dreifst þar samkvæmt sérfræðingum. Búið er að setja útgöngubann á bæinn í kjölfar þess að ríkisstjórn landsins beitti neyðarlögum vegna hans í gærkvöldi.

Sérfræðingar áætla að allt að 38 prósent þeirra 200 þúsund manna sem búa í bænum séu þegar smitaðir af veirunni, samkvæmt frétt Reuters. Þá er talið að smitaðir í bænum séu um það bil þriðjungur þeirra sem smitast hafa í Ísrael en um 8,7 milljónir manna búa þar í landi.

Þó er einungis búið að staðfesta um 966 tilfelli í bænum.

Embættismenn segja samt íbúar Bnai Brak búi í mikilli nánd og þéttleiki byggðarinnar þar sé nærri því hundrað sinnum meiri en meðaltal Ísrael. Margir íbúa bæjarins eru fátækir og margir þeirra hafa farið eftir ráðum presta, sem eru andsnúnir ríkinu, og hafa hvatt fólk til að fylgja ekki tilmælum sem ætlað er að draga úr útbreiðslu veirunnar.

Lögreglan mun koma í veg fyrir alla umferð úr og í bæinn og koma rúmlega þúsund lögregluþjónar og hermenn að þeim aðgerðum. Auk þess að loka leiðum inn og úr bænum munu lögregluþjónarnir einnig draga úr ferðum íbúa innan bæjarins en þeim hefur verið gert að halda sig heima eins mikið og auðið er.

Yfirmaður lögreglunnar segir að streitist íbúar á móti hafi lögregluþjónar fengið heimild til að beita „viðeigandi valdi“, samkvæmt Times of Israel.

Eldri íbúar Bnei Brak verða fluttir úr bænum til að koma í veg fyrir að þau smitist.

Í Ísrael hafa 7.030 greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur, og 36 hafa dáið. Gangi verstu spár varðandi Bnei Brak eftir, eru þó um 78 þúsund manns smitaðir þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×