NBA-körfuboltamaðurinn LeBron James er staddur í Liverpool þessa dagana og hann verður meðal áhorfenda í hádeginu á morgun þegar Liverpool tekur á móti Manchester United í risaleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.
James keypti hlut í Liverpool (í gegnum Fenway Sports Group) fyrir nokkru en þetta er fyrsti leikur liðsins þar sem þessi stórstjarna úr NBA-körfuboltanum verður meðal áhorfenda.
James er leikmaður Miami Heat en hann þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að missa af æfingum með liði sínu á meðan ferðinni stendur því það er verkfall í NBA-deildinni eins og flestir vita.
James birti myndir á twitter-síðu sinni í dag þar sem hann sást skoða aðstæður á Anfield sem og á æfingasvæði félagsins.
LeBron James mætir til að horfa á sína menn á Anfield á morgun
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
