Erlent

Kínverjar tregir til aðgerða gegn Búrma

Stjórnarhermenn í Búrma.
Stjórnarhermenn í Búrma. MYND/AFP

Erindreki Sameinuðu þjóðanna hefur lokið viðræðum sínum við Kínverja, sem miðuðu að því að fá Kína til að þrýsta á stjórnvöld í Búrma um aukið lýðræði og mannréttindi í landinu.

Viðræðurnar báru lítinn sem engann árangur en talið er að Kínverjar séu í lykilhlutverki þegar kemur að því að fá herforingjana í Búrma til að láta af mannréttindabrotum sínum og taka upp lýðræðislegri stjórnarhætti.

Erindrekinn, Ibrahim Gambari hefur verið á ferð um austurlönd til þess að fá ríkisstjórnir á svæðinu til þess að þrýsta á stjórnina í Rangoon, höfuðborg Búrma sem legið hefur undir miklum ámæli fyrir harkalegar aðgerðir gegn mótmælendum síðustu vikur.

George Bush Bandaríkjaforseti biðlaði einnig til Kínverja í síðasta mánuði um að fylgja fordæmi bandaríkjanna og taka upp efnahagsþvinganir, án árangurs. Kínverjar eru tregir til að beita þvingunum af því tagi auk þess sem þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta í landinu.

Þeir lofuðu því engu í viðræðunum heldur héldu sig við fyrri stefnu sem er sú að takast á við málið á diplómatískum nótum í stað þess að beita þvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×