Erlent

Mans­haus vildi keyra niður sem flesta í mið­borg Oslóar

Atli Ísleifsson skrifar
Verjandi Manshaus, Audun Beckstrøm (til vinstri) og ákærði, Philip Manshaus (til hægri) í dómsal í morgun.
Verjandi Manshaus, Audun Beckstrøm (til vinstri) og ákærði, Philip Manshaus (til hægri) í dómsal í morgun. EPA

Norðmaðurinn Philip Manshaus var með áætlanir um að keyra niður sem flesta í miðborg Oslóar. Það kemur fram í skrifuðum athugasemdum hans sem hafa verið lagðar fyrir dóm, en réttarhöld hófust í máli Manshaus í morgun.

Hinn 22 ára Manshaus er ákærður fyrir morð og brot á hryðjuverkalögum eftir að hann drap sautján ára stjúpsystur sína á heimili í Bærum og réðst að því loknu á moskuna al-Noor Islamic Centre þann 10. ágúst síðastliðinn. Fór hann þangað með með skotvopn og með það að markmiði að „drepa eins marga múslima og mögulegt væri“, líkt og segir í ákæru. 

Gestum í moskunni tókst hins vegar að yfirbuga Manshaus áður en hann náði að slasa nokkurn. Hann hafði þó hleypt af nokkrum skotum.

Manshaus hefur viðurkennt gjörðirnar, en neitar þó sök. Verjandi Manshaus segir ákærða bera fyrir sig neyðarrétt.

Lögregla vill meina að Manshaus hafi drepið stjúpsystur sína, Johanne Zhangjia Ihle-Hansen, þar sem hún var ekki af norskum uppruna.

Þegar Manshaus mætti fyrir dómara í dag brosti hans og heilsaði að nasistasið, áður en hann settist við hlið verjenda síns.

Í skjölum sem fundust í herbergi Manshaus við húsleit mátti svo sjá áætlanir um að keyra niður gangandi vegfarendur í hverfinu Grønland í Osló. Þar mátti líka sjá lista um kosti og galla slíkrar árásar. Sagði meðal annars að Grønland væri hverfi með mikið af ungu fólki, sem hann taldi vera kostur.

Áætlað er að réttarhöldin standi í þrjár vikur og eru alls um þrjátíu manns á vitnalista, þar á meðal faðir Manshaus og svo móðir hinnar látnu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×