Innlent

Sendiráðin kanna áhuga á tvíhliða ferðasamningum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kemur til fundar í Stjórnarráðinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kemur til fundar í Stjórnarráðinu. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Utanríkisráðherra segist hafa falið sendiráðum Íslands að kanna hvort áhugi sé meðal þeirra þjóða sem hafa staðið sig best í baráttunni við kórónuveiruna að gera tvíhliða samning við Ísland um opnun landamæra. Til þess þyrftu bæði ríkin þó áfram að tryggja varúðarráðstafanir og segist Guðlaugur Þór Þórðarson í samtali við Morgunblaðið hafa lagt áherslu á það í samtölum við starfsbræður sína á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

Hann segir að nú leiti ráðherrar, embættismenn og sérfræðingar á heilbrigðissviði að leiðum til að opna fyrir milliríkjaferðalög á ný. Til að mynda sé til skoðunar hvort setja skuli skilyrði fyrirferðalögum og segir Guðlaugur að mikil áhersla sé lögð á að ekki verði bakslag í baráttunni.

Tímasetningar ótímabærar

Íslendingar og aðrar þjóðir muni ekki ná fullum bata í efnahagslífinu fyrr en landamærin verði opnuð á ný. Guðlaugur segir Morgunblaðinu að hann sé þó ekki tilbúin að nefna neina dagsetningu í því samhengi. Það sé því ótímabært að slá því föstu að Íslendingar geti ferðast um Norðurlöndin í ágúst, en ferðaþjónustan hefur horft til þess að ferðalög hefjist á ný síðsumars.

Guðlaugur segir að til þess að opna á einhverjar ferðir verði að tryggja sóttvarnir, bæði á Íslandi og annars staðar. „Hvað varðar utanríkisþjónustuna hef ég lagt áherslu á þetta í samtölum mínum við kollega mína á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum,“ segir Guðlaugur. „Sömuleiðis hef ég falið sendiráðunum að kanna með óformlegum hætti hvort í löndum sem hafa náð bestum árangri í baráttunni gegn veirunni sé vilji til tvíhliða samskipta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×