Innlent

Framseldur til Portúgals þar sem þungur dómur bíður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í málinu.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í málinu. Vísir/Egill

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að portúgalskur ríkisborgari verði framseldur frá Íslandi til Portúgals vegna fíkniefnasölu þar í landi. Maðurinn á yfir höfði sér tæplega sjö ára fangelsisdóm í Portúgal fyrir að hafa staðið að sölu fíkniefna árið 2014 og að hafa haft í vörslu sinni 2,5 grömm af kókaíni.

Yfirvöld í Portúgal kröfðust þess fyrr á árinu að maðurinn yrði framseldur til Portúgals en evrópsk handtökuskipun á hendur manninum hefur verið í gildi frá því í maí 2018. Ríkissaksóknari ákvað að verða við beiðni yfirvalda í Portúgal um að framselja manninn. Sú ákvörðun var kærð til héraðsdóms.

Maðurinn hefur dvalið á Íslandi frá árinu 2017 og búið hér með sambýliskonu sinni og barni þeirra. Krafðist hann þess að ákvörðun ríkissaksóknara um framsal væri felld úr gildi, meðal annars vegna þess að himinn og haf væri á milli þeirrar refsingar sem varnaraðili hafi verið dæmdur til í Portúgal og til þeirrar refsingar sem hann hefði hugsanlega verið dæmdur til hér á landi fyrir sambærilegt brot.

„Þyngd hins portúgalska dóms veki furðu og sú spurning vakni hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að afhenda varnaraðila í hendurnar á ríki þar sem svo fráleitt þungir dómar séu kveðnir upp,“ er meðal þess sem kom fram í greinargerð verjanda mannsins samkvæmt úrskurði Landsréttar.

Héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu kröfu mannsins og stendur því ákvörðun ríkissaksóknara. Verður maðurinn því framseldur til Portúgals.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×