Carlo Ancelotti segir Zlatan Ibrahimovic velkominn til Everton en ekki til þess að spila fyrir félagið.
Zlatan er án félags eftir að hann fór frá LA Galaxy í nóvember. Hann hefur verið orðaður við hin ýmsu félög og nú síðast Everton.
Ein helsta ástæða þess að Zlatan var orðaður við Everton er Ancelotti, en Zlatan spilaði fyrir Ancelotti hjá PSG.
„Hann er góður félagi minn,“ sagði hinn nýráðni knattspyrnustjóri Everton Ancelotti á blaðamannafundi.
„Ég veit að tími hans í Bandaríkjunum er búinn en ég veit ekkert hvað hann er að hugsa. Ég verð að hringja í hann, ef hann vill koma til Liverpool og njóta þá má hann það, en ekki til að spila.“
Sænski framherjinn þarf því að finna sér eitthvað annað félag vilji hann snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

