Enski boltinn

Son í hóp með Lee Cattermole

Arnar Geir Halldórsson skrifar

Suður-Kóreumaðurinn Heung-Min Son kom sér í hóp vafasamra manna þegar hann fékk að líta rauða spjaldið í 0-2 tapi Tottenham gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær. 

Þetta var þriðja rauða spjald Son í ensku úrvalsdeildinni á þessu ári en hann fékk að líta rauða spjaldið gegn Bournemouth undir lok síðustu leiktíðar eða í maí á þessu ári.

Hann fékk einnig beint rautt spjald í leik gegn Everton í nóvember á þessu ári.

Síðastur til að fá að líta rauða spjaldið þrívegis á sama ári í ensku úrvalsdeildinni var hinn umdeildi Lee Cattermole árið 2010 en hann lék þá fyrir Sunderland.

Alls fékk Cattermole sjö sinnum að líta rauða spjaldið á ferli sínum í úrvalsdeildinni með Middlesbrough, Wigan og Sunderland en hann nær ekki toppsætinu yfir flest rauð spjöld frá stofnun úrvalsdeildarinnar því þeir Patrick Vieira, Duncan Ferguson og Richard Dunne tróna á toppnum með átta rauð spjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×