Erlent

Lögreglan í Færeyjum skaut vopnaðan byssumann eftir að hafa lent í skothríð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lögreglubíll í Færeyjum.
Lögreglubíll í Færeyjum. Mynd/Føroya løgreglan.

35 ára gamall karlmaður, sem skaut og særði lögreglumann í Færeyjum, liggur nú á gjörgæsludeild Landssjúkrahússins í Þórshöfn eftir að hann var sjálfur skotinn af lögreglu. Lögreglumaðurinn slapp ótrúlega vel en hann fékk tvö högl í andlit og 30 högl í hlífðarhjálm. Atburðurinn gerðist um ellefuleytið í gærkvöldi í bænum Miðvogi, sem er skammt frá flugvellinum í Vogum. Lögreglan hafði fengið tilkynningu um mann, vopnaðan haglabyssu, sem hótaði að taka eigið líf, að því er fram kemur í tilkynningu færeysku lögreglunnar og fréttum þarlendra fjölmiðla. Þegar lögregla kom að húsinu var fyrst reynt að ná tali af honum með milligöngu ættingja en síðan freistaði lögreglumaður þess að ræða við hann. Skipti þá engum togum að hann skaut mörgum skotum úr húsinu í átt að lögreglu, sem hæfðu einn lögreglumann.Lögreglan skaut þá manninn og særði. Honum var veitt fyrsta hjálp á staðnum en hann síðan fluttur á sjúkrahús.

Byssumaðurinn var í dag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, sakaður um manndrápstilraun gegn opinberum starfsmanni. Úrskurðurinn var kveðinn upp að honum fjarstöddum þar sem hann liggur á gjörgæsludeild. Ekki hefur nánar verið upplýst um ástand mannsins. Lögreglunni í Kaupmannahöfn og dönsku ríkislögreglunni hefur verið falið að aðstoða við rannsókn málsins þar sem færeyska lögreglan telst málsaðili. 

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.