Erlent

Sterk staða Johnsons eftir kosningarnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Boris Johnson verður áfram forsætisráðherra Bretlands eftir sigur Íhaldsflokksins í þingkosningum gærdagsins. Hann lofaði því í dag að klára útgöngumálið og má því búast við því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu í næsta mánuði.„Þessar kosningar þýða að það Brexit er óumdeilanlega afstaða breska þjóðarinnar,“ sagði forsætisráðherrann í nótt þegar niðurstöður lágu fyrir.Þegar horft er til Bretlands í heild má sjá að Íhaldsflokkurinn hefur nú töluverða yfirburði. Hann fékk 364 sæti af 650 og þar með hreinan meirihluta, bætti við sig 47 sætum. Flokkurinn var sterkastur á Englandi og sótti einnig sæti til Wales.Verkamannaflokkurinn fékk 203 sæti, tapaði 59, og fékk því sína verstu kosningu frá árinu 1935. Frjálslyndir demókratar fengu fleiri atkvæði en í síðustu kosningum en töpuðu samt sem áður einu sæti vegna þess að á Bretlandi eru einmenningskjördæmi.Á Skotlandi er staðan orðin þannig að Skoski þjóðarflokkurinn hefur 48 sæti af þeim 59 sem Skotar fá. Flokkurinn er því í yfirburðastöðu og hefur krafa hans um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland því aukið vægi.Nicola Sturgeon, leiðtogi flokksins, beindi þeim orðum að Johnson að atkvæðagreiðsla væri ekki bara krafa hennar eða Skoska þjóðarflokksins, heldur réttur Skota.Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, var niðurlútur þegar niðurstöðurnar lágu fyrir. Hann mun ekki leiða flokkinn í næstu kosningum. Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, er í svipaðri stöðu. Hún missti þingsæti sitt til Skoska þjóðarflokksins og má því ekki lengur, samkvæmt reglum Frjálslyndra demókrata, leiða flokkinn. 

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.