Erlent

Kallar eftir sjálfsskoðun Verkamannaflokksins

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeremy Corbyn segir að stefnumál flokksins hafi breytt pólitíska landslaginu á Bretlandi.
Jeremy Corbyn segir að stefnumál flokksins hafi breytt pólitíska landslaginu á Bretlandi. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segist axla ábyrgð á afhroði flokksins í þingkosningum vikunnar í Bretlandi. Hann telur að flokkurinn hafi tapað verulega á hvernig haldið var á Brexit-málum innan hans og kjósendur hafi talið Verkamannaflokkinn hikandi og að reyna að biðla til beggja fylkinga.

Þar að auki kennir hann fjölmiðlum, hruninu 2008, dreifingu auðs og óheiðarleika Boris Johnson um ósigurinn.

Verkamannaflokkurinn fékk 203 sæti, tapaði 59, og fékk því sína verstu kosningu frá árinu 1935. Verkamannaflokkurinn tapaði í kjördæmum í norðurhluta Englands sem hafa verið „eign“ verkamanna um áratugaskeið eða jafnvel alltaf.

Corbyn er þó viss um að Verkamannaflokkurinn hafi verið réttu megin við málefnin, ef svo má að orði komast, og að stefnumál flokksins hafi breytt pólitíska landslaginu á Bretlandi. Þá gefur hann í skyn að ef úrganga Bretlands úr Evrópusambandinu hefði ekki verið til staðar, væri hann nú forsætisráðherra.

„Það er engin spurning að stefnumál okkar eru vinsæl,“ skrifaði Corbyn meðal annars í grein sem birt var á vef Guardian í gær. Þá velti hann upp þeirri spurningu hvernig Verkamannaflokkurinn gæti notað reynsluna af þessum kosningum til árangurs í framtíðinni.

Því hafi hann kallað eftir sjálfsskoðun Verkamannaflokksins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Corbyn tjáir sig um ósigurinn með ítarlegum hætti en innan Verkamannaflokksins eru hávær köll um að hann stígi til hliðar, sem hann hefur sagst ætla að gera. Fyrst þurfi þó að velja nýjan leiðtoga. Sunday Times (áskriftarvefur) segir að Corbyn ætli ekki að hætta fyrr en í apríl í fyrsta lagi. Þar sem val á nýjum leiðtoga muni taka einhvern tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.