Erlent

Aðstoðarmaður forsætisráðherra Möltu neitar sök vegna morðs blaðakonu

Samúel Karl Ólason skrifar
Daphne Caruana Galizia var myrt með bílsprengju í október 2017.
Daphne Caruana Galizia var myrt með bílsprengju í október 2017. EPA/DOMENIC AQUILINA

Keith Schembri, fyrrverandi aðstoðarmaður Josheph Muscat, forsætisráðherra Möltu, segist ekki hafa lekið upplýsingum um rannsókn á morði blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia til mannsins sem grunaður er um að hafa skipulagt morð hennar. Hann neitaði einnig að hafa skrifað bréf til mannsins, sem heitir Yorgen Fenech, og ráðlagt honum hvað hann ætti að segja við lögregluna eftir að hann var handtekinn vegna morðsins.

Þetta kom fram í réttarhöldum í dag þar sem Schembri viðurkenndi að vera vinur Fenech en hann hefði ekki sagt Fenech að verið væri að hlera síma hans. Þeir hafi einungis rætt það sem búið var að koma fram í fjölmiðlum í tengslum við málið.



Schembri var viðstaddur nokkra fundi þar sem rannsakendur lögreglunnar sögðu Muscat frá rannsókninni.

Fenech var handtekinn í síðasta mánuði þegar hann reyndi að yfirgefa Möltu á snekkju sinni. Hann neitar sök en segir Schembri tengjast málinu og að Keith Arnaud, sem hefur haldið utan um rannsóknina á morðinu, sé náinn vinur Schembri.

Schembrei þvertekur sömuleiðis fyrir að hafa komið að morðinu með nokkrum hætti.

Maður sem heitir Melvin Theuma hefur játað að hafa haft milligöngu vegna morðs Galizia en þrír menn hafa verið ákærðir fyrir að myrða blaðakonuna með bílsprengju í október 2017.

Forsætisráðherrann hefur ákveðið að láta af embætti forsætisráðherra á næsta ári vegna málsins. Evrópuþingið hefur þó kallað eftir því að hann segi af sér strax. Í ályktun sem þingið samþykkti í dag segir að lýðræði og réttarríkinu vera ógnað í Möltu, sem er minnsta ríki Evrópusambandsins.

 


Tengdar fréttir

Fordæmir Möltu og kallar mafíuríki

Sonur Daphne Caruana Galizia, blaðamanns sem fjallaði ítarlega um Panamaskjölin og aflands­félag tengt Joseph Muscat forsætisráðherra og var myrt á mánudag, fordæmdi stjórnvöld á Möltu harkalega í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×