Erlent

Drottningin setti nýtt þing

Samúel Karl Ólason skrifar
Elísabet Bretlandsdrottning.
Elísabet Bretlandsdrottning. Vísir/EPA

Elísabet Bretlandsdrottning setti í dag þýtt þing landsins er hún hélt ræðu um áætlanir Boris Johnson, forsætisráðherra. Þar fór drottningin yfir helstu áherslumál Johnson fyrir komandi kjörtímabil, þar sem hann er með 80 manna meirihluta á þingi. Áætlanir Johnson einkennast að mesta leyti af Brexit, auknum fjárútlátum til heilbrigðiskerfis Bretlands og hertra dóma vegna hryðjuverkadóma.

Ræða drottningarinnar er skrifuð af ríkisstjórninni en hún las ræðuna úr hásæti sínu á þinginu. Samkvæmt frétt Guardian var ræðan mjög svipuð þeirri síðustu en Íhaldsflokkurinn hefur bætt einhverju við hana í tengslum við kosningaloforð þeirra.

Johnson hefur heitið því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu fyrir eða á 31. janúar. Til þess þurfa þingmenn að samþykkja frumvarp Johnson sem felur sömuleiðis í sér að úrgönguferlinu verði lokið við enda næsta árs.

Einnig stendur til að leggja fram frumvarp varðandi dóma hryðjuverkamanna og varð það frumvarp til í kjölfar hnífaárásarinnar á London Bridge. Frumvarpið fer í sér þyngri dóma og hærri lágmarksrefsingar fyrir brot sem tengjast hryðjuverkum.

Lögin fela einnig í sér auknar heimildir fyrir leyniþjónustur og öryggisstofnanir Bretlands. Er þeim ætlað að hjálpa þeim stofnunum að bregðast við ógnunum frá óvinveittum ríkjum og njósnurum þeirra.

Í ræðu drottningarinnar kom einnig fram að auka eigi fjárútlát til menntakerfisins og hækka byrjunarlaun kennara.

Ræðuna má sjá hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.