Erlent

Mæta aftur fyrir dómara í hádeginu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sexmenningarnir voru leiddir fyrir dómara í liðinni viku.
Sexmenningarnir voru leiddir fyrir dómara í liðinni viku. skjáskot
Dómstóll í Namibíu mun í hádeginu að íslenskum tíma taka fyrir beiðni sexmenninganna sem handteknir hafa verið í landinu grunaðir um spillingu, fjársvik og mútuþægni í tengslum við Samherjamálið. Mennirnir fara fram á að verða látnir lausir gegn tryggingu en ekki tókst að ákvarða í málinu á föstudaginn þar sem lögfræðingar þeirra voru handteknir.

Umræddir sexmenningar eru hinir svokölluðu „hákarlar“; þeir Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau og frændi áðurnefnds James, auk Bernhardts Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins Namgomar sem Samherji fékk kvóta í gegnum, og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum líkt og Gustavo.

Fyrrnefndir lögmenn sem hákarlarnir réðu frá Suður-Afríku voru ekki með atvinnuleyfi í Namibíu og voru þeir því handteknir einnig og sektaðir um háar fjárhæðir. Lögmennirnir, Mike Hellens og Dawie Joubert, teljast nokkuð þekktir fyrir störf sín fyrir Jaboc Zuma, fyrrverandi forseta Suður-Afríku.

Namibísku sexmenningarnir hafa nú fengið aðra lögmenn og því verður málið loks tekið fyrir í dag. Samkvæmt namibískum miðlum er nokkur fjöldi fólks saman kominn við dómshúsið til að hlýða á niðurstöðu dómarans, en kallað hefur verið eftir því að mennirnir verði ekki látnir lausir.

Hér að neðan má sjá myndband namibíska miðilsins Confidente af því þegar sexmenningarnir mættu í dómsal á fimmtudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×