Erlent

Velja nýtt for­sætis­ráð­herra­efni á sunnu­daginn

Atli Ísleifsson skrifar
Antti Rinne (til hægri) gekk á fund Sauli Niinistö Finnlandsforseta á þriðjudag þar sem hann baðst lausnar.
Antti Rinne (til hægri) gekk á fund Sauli Niinistö Finnlandsforseta á þriðjudag þar sem hann baðst lausnar. AP
Jafnaðarmenn í Finnlandi munu velja nýtt forsætisráðherraefni flokksins á sunnudaginn. Frá þessu var greint í morgun, en Antti Rinne baðst lausnar sem forsætisráðherra fyrr í vikunni eftir að Miðflokkurinn, sem á sæti í ríkisstjórn landsins, sagðist ekki treysta Rinne lengur til að leiða stjórn.Miðstjórn Jafnaðarmannaflokksins lagði í morgun til að Rinne leiði stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrir hönd flokksins, en Rinne mun áfram starfa sem formaður Jafnaðarmannaflokksins þó að hann hafi sagt af sér sem forsætisráðherra. Þingflokkurinn á þó lokaorðið varðandi það hver leiðir viðræðurnar fyrir hönd flokksins. Miðflokksmenn hafa áður gefið grænt ljós á að Rinne geti leitt viðræðurnar.Varaformaður Jafnaðarmanna og samgönguráðherrann Sanna Marin og þingflokksformaðurinn Antti Lindtman hafa bæði lýst því yfir að þau sækist eftir því að verða næsti forsætisráðherra landsins. Þau hafa bæði sagt að þau geti þó ekki leitt stjórnarmyndunarviðræður þar sem þau sækist nú eftir að leiða nýja stjórn.Miðflokksmenn lýstu yfir vantrausti á Rinne í kjölfar átaka á vinnumarkaði sem snerust að finnskum póststarfsmönnum.Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í vor og myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn þá stjórn með Græningjum, Miðflokknum, Vinstra bandalaginu og Sænska þjóðarflokknum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.