Erlent

Sakar Leonar­do DiCaprio um að fjár­magna í­kveikjur í Amazon regn­skóginum

Eiður Þór Árnason skrifar
Sonur forsetans hafði áður viðrað svipaðar ásakanir á Twitter.
Sonur forsetans hafði áður viðrað svipaðar ásakanir á Twitter. Getty/Vivien Killilea - China News Service
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sakaði í gær bandaríska leikarann og umhverfisverndarsinnann Leonardo DiCaprio um að fjármagna íkveikjur í Amazon regnskóginum. Breski miðilinn The Guardian greinir frá þessu og vitnar þar í brasilíska miðilinn Folha De S.Paulo.

„Þessi Leonardo DiCaprio er svalur náungi, er það ekki? Gefandi peninga til þess að brenna Amazon skóginn,“ var haft eftir forsetanum á fundi hans með stuðningsmönnum sínum í gær.

Bolsonaro hefur áður lýst því yfir að hann vilji reka umhverfisverndarsamtök í burtu frá landinu og gagnrýnt erlend stjórnvöld harðlega fyrir meint afskipti af innanríkismálum eftir að margir kölluðu eftir róttækum aðgerðum vegna skógarelda í landinu.

Sjá einnig: Ætlar ekki að þiggja aðstoð G7-ríkja fyrr en Macron biðst afsökunar

Miklir eldar hafa logað í Amazon regnskóginum frá því í ágúst á þessu ári. Tilkynnti þá bandaríski stórleikarinn að umhverfisverndarsamtökin Earth Alliance sem hann ætti þátt í að stofna myndu leggja til fimm milljónir Bandaríkjadala til þess að berjast gegn skógareldunum.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem forsetinn ber fram þessar ásakanir á hendur DiCaprio en um sólarhring áður sagði hann leikarann eiga þátt í brunanum í útsendingu á Facebook og að hann væri hluti af alþjóðlegri „herferð gegn Brasilíu.“

Sjá einnig: Net­heimar loga vegna skógar­elda í Amazon frum­skóginum

Fyrrnefndir fjölmiðlar töldu sér skylt að árétta að ekkert bendir til þess að samtök tengd leikaranum eigi þátt í bruna skógarins.

Ásakanir forsetans koma í kjölfar þess að fjórir sjálfboðaliðar sem unnu að því að slökkva elda í skóginum voru handteknir síðasta þriðjudag. Voru þeir sakaðir um það af lögreglu að hafa kveikt í skóginum í þeim tilgangi að ýta undir peningaöflun alþjóðlegra félagasamtaka.

Fólkinu var síðar sleppt úr haldi í kjölfar þrýstings frá almenningi en lögreglan hefur ekki greint frá neinum sönnunargögnum sem styðja ásakanirnar.


Tengdar fréttir

Sextíu daga brunabann í Amazon

Jair Bolsanaro, forseti Brasilíu, hefur skrifað undir tilskipun sem bannar það að kveikja elda til þess að rýma land í Amazon-regnskóginum. Yfirvöld í Brasilíu hafa mátt þolað harða gagnrýni og ásakanir um aðgerðarleysi vegna mikilla skógarelda sem geysa í regnskóginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×