Enski boltinn

Stuðningsmennirnir vilja stjóra Gylfa burt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Marco Silva umhugsi.
Marco Silva umhugsi. vísir/getty
Everton hefur ekki gengið vel það sem af er leiktíð og stjórinn Marco Silva er undir mikilli pressu. Ekki minnkaði pressan við tap dagsins.

Everton tapaði 2-0 fyrir fallbaráttuliði Norwich á heimavelli og er liðið einungis fjórum stigum frá fallsæti er þrettán umferðir eru búnar af deildinni.

Stuðningsmenn Everton hafa flestir fengið sig fullsaddan og það voru nokkrir þeirra sem létu vel í sér heyra á Goodison Park í dag.

Patrick Boyland, blaðamaður á The Athletic, segir að einhverjir stuðningsmenn liðsins hefðu kallað í átt að Bill Kenwright, stjórnarformanni Everton, að það þyrfti að skipta um stjóra og það strax.







Einhverjir stuðningsmennirnir voru tilbúnir að leggja í púkkinn til þess að borga Silva út frá félaginu og sögðu hann þann versta í sögu félagsins.

Eftir annað mark Norwich í uppbótartíma bauluðu stuðningsmennirnir á enn eina vonlausu frammistöðu Everton á leiktíðinni. Þeir sungu í kaldhæðnislegum tón að Silva yrði rekinn frá félaginu.







Silva var ráðinn sem stjóri Everton þann 31. maí 2018 á þriggja ára samningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×