Innlent

Náðist með tvö kíló af kókaíni í Leifsstöð

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málið.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málið. vísir/jóhannk
Íslenskur karlmaður er nú í gæsluvarðhaldi fyrir að hafa reynt að smygla tæplega tveimur kílóum af kókaíni til landsins fyrr í mánuðinum. Lögreglan á Suðurnesjum hefur haldlagt á fimmta tug kílóa af sterkum fíkniefnum það sem af er ári.

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði manninn sem kom með flugi frá Edinborg þann 10. nóvember síðastliðinn. Við leit fundust tæplega tvö kíló af kókaíni sem hafði verið faliðí ferðatösku. Maðurinn hafði aðeins millilent í Edinborg en kom þaðan frá Alicanti á Spáni.

„Í framhaldi var hann handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald og sætir því enn,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. 

Lögreglan á Suðurnesjum hefur rannsakað fjölda mála af þessum toga í ár. Þrjú stærstu kókaínmál Íslandssögunnar hafa til að mynda komið upp á árinu. Jón Halldór segir að það stefni í metár í haldlögðum fíkniefnum hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Þetta er eitthvað að nálgast á fimmta tug kílóa sem lögreglan á Suðurnesjum er búin að haldleggja á þessu ári,“ segir Jón Halldór en vegna rannsóknarhagsmuna sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar um nýjasta málið að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Í gæslu­varð­hald og ein­angrun grunuð um kókaín­smygl

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að kona er grunuð er um að hafa flutt hingað til lands um 400 grömm af kókaíni og 0,49 grömm af amfetamíni sæti gæsluvarðhaldi til 24. september næstkomandi.

Ungt fólk í umfangsmiklu kókaínsmygli: „Unnið í málinu nánast allan sólarhringinn“

Fjórir Íslendingar sem eru í gæsluvarðhaldi vegna kókaínsmygls reyndu að flytja tæplega tuttugu kíló af kókaíni til landsins og er það eitt mesta magn kókaíns sem reynt hefur verið að smygla til landsins. Heimildir fréttastofu herma að þau séu öll á þrítugsaldri, einhverjir nær tvítugu en þrítugu. Yfirlögregluþjónn segir unnið nánast allan sólarhringinn að því að upplýsa málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×