Innlent

Ungt fólk í umfangsmiklu kókaínsmygli: „Unnið í málinu nánast allan sólarhringinn“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Langflestir sem flytja eiturlyf gegnum Leifsstöð eru útlendingar.
Langflestir sem flytja eiturlyf gegnum Leifsstöð eru útlendingar. Fréttablaðið/Eyþór
Fjórir Íslendingar sem eru í gæsluvarðhaldi vegna kókaínsmygls reyndu að flytja tæplega tuttugu kíló af kókaíni til landsins og er það eitt mesta magn kókaíns sem reynt hefur verið að smygla til landsins. Heimildir fréttastofu herma að þau séu öll á þrítugsaldri, einhverjir nær tvítugu en þrítugu. Yfirlögregluþjónn segir unnið nánast allan sólarhringinn að því að upplýsa málið. 

Fréttastofa greindi frá því í vikunni að fjórir Íslendingar væru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa smyglað á annan tug kílóa af kókaíni til landsins.

Málið kom upp á Keflavíkurflugvelli þann 12. maí síðastliðinn og voru fjórir úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald í kjölfarið. Það á uppruna sinn í Frankfurt í Þýskalandi en lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið í samstarfi við þýsk lögregluyfirvöld, tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu er um að ræða tæplega tuttugu kíló af kókaíni sem falið var í ferðatöskum. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er þetta mesta magn af kókaíni sem haldlagt hefur verið í einu á Keflavíkurflugvelli, og jafnvel á landinu.

Ljóst er að virði efnisins í götusölu hleypur á hundruðum milljóna en götuverð á kókaíni er um 14.600 krónur fyrir grammið samkvæmt könnun SÁÁ. Þannig eru tuttugu kíló virði hátt í þrjú hundruð milljóna króna.

Þá herma heimildir fréttastofu að þrír karlmenn og ein kona séu í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Sömu heimildir herma að þau séu á þrítugsaldri, einhverjir nær tvítugu en þrítugu.

Bjarney S. Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að rannsókn málsins miði vel. „Það er mikill tími sem fer í þetta, gott fólk að vinna að þessu og samstarf við aðrar löggæslustofnanir. Það er bara nánast allan sólarhringinn, nýta allan tíma sem við höfum. Menn rétt hvíla sig bara og halda svo áfram,“ segir Bjarney S. Annelsdóttir. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.