Erlent

Þrír stjórnmálamenn sagt af sér á Möltu

Andri Eysteinsson skrifar
Daphne Caruana var myrt í október 2017.
Daphne Caruana var myrt í október 2017. vísir/Getty
Þrír hafa stigið til hliðar frá störfum fyrir maltnesku ríkisstjórnin. Talið er að afsagnirnar geti tengst rannsókn á morðinu á maltneska rannsóknarblaðamanninum Daphne Caruana Galizia í október 2017, þar á meðal tveir ráðherrar. BBC greinir frá.

Rannsóknarblaðamaðurinn Daphne Caruana Galizia var ráðin af dögum í október 2017 þegar ráðist var gegn henni með bílsprengju. Fyrir andlát sitt hafði Caruana Galizia fjallað ítarlega um Panamaskjölin, spillingarmál maltneskra stjórnmála- og embættismanna, meðal annars aflandsfélag sem tengdist forsætisráðherranum Joseph Muscat.

Sjá einnig: Forsætisráðherra segir Galizia hafa verið sinn helsta andstæðing

Nú, tveimur árum eftir morðið á Caruana Galizia, hefur æðsti ráðgjafi forsætisráðherrans, Keith Schembri stigið til hliðar eftir að hann hafði verið yfirheyrður af lögreglu. Þá sagði Konrad Mizzi, ráðherra ferðamála af sér embætti og efnahagsmálaráðherrann Chris Cardona steig til hliðar.

Allir þrír neita þó að hafa gert nokkuð ólöglegt. Aðrir þrír hafa nú þegar verið kærðir fyrir sinn þátt í morðinu en rannsókn lögreglu heldur áfram með það að markmiði að komast að því hver fyrirskipaði morðið á Caruana Galizia.

Í afhjúpunum sínum hafði Caruana Galizia bent á þátt Schembri í Panamaskjölunum og benti á að hann og áðurnefndur Mizzi hafi hagnast á aflandsfyrirtækjum.

Þrýstingurinn hefur aukist á maltnesku ríkisstjórnina vegna málsins en mótmælt hefur verið fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Valletta. Stjórnarandstöðumeðlimir hrópa ókvæðisorðum að ríkisstjórninni og kalla eftir því að rætt verði um framtíð Muscat sem forsætisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×