Alisson sá rautt í sigri Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alisson þurfti að fara snemma í sturtu
Alisson þurfti að fara snemma í sturtu vísir/getty
Tíu menn Liverpool náðu að hanga á sigrinum gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir fjörlega byrjun á leiknum kom Virgil van Dijk heimaönnum í Liverpool yfir eftir fyrirgjöf frá Trent Alexander-Arnold úr aukaspyrnu á 18. mínútu.

Það rann markaæði á miðvörðinn því hann skoraði annað mark Liverpool aðeins sex mínútum seinna. Aftur skoraði hann með skalla og aftur eftir fyrirgjöf Alexander-Arnold, í þetta skipti úr hornspyrnu. Virgil van Dijk er nú markahæsti varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá því í upphafi síðustu leiktíðar.

Leikmenn Brighton voru þó ekki af baki dottnir og fengu mikinn tíma á boltanum, en náðu ekki að gera sér almennilegan mat úr því.

Á 76. mínútu varð Liverpool fyrir áfalli þegar Alisson var rekinn af velli með beint rautt spjald fyrir að handleika knöttinn utan vítateigs.

Brighton fékk aukaspyrnu fyrir vikið, Lewis Dunk steig upp og tók hana og skoraði beint úr aukaspyrnunni í gegnum varnarvegg Liverpool.

Gestirnir sóttu af krafti en náðu ekki sigurmarkinu og lauk leiknum með 2-1 sigri Liverpool. Eins og staðan er núna er Liverpool með 11 stiga forystu á toppi deildarinnar, en Leicester á leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira