Innlent

Dæmdur í sex ára fangelsi fyrir „heiftúðuga og lífshættulega“ tilraun til manndráps

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Nær fumlaus viðbrögð nærstaddra aðila, og þeirra sem á eftir komu, ásamt aðstæðum á vettvangi, eru sögð hafa orðið til þess að ekki fór verr.
Nær fumlaus viðbrögð nærstaddra aðila, og þeirra sem á eftir komu, ásamt aðstæðum á vettvangi, eru sögð hafa orðið til þess að ekki fór verr. vísir/vilhelm
Héraðsdómur Austurlands dæmdi í gær Sigurð Sigurðsson í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann var auk þess dæmdur til að greiða brotaþola hátt í tvær milljónir í miska- og skaðabótætur auk þess sem hann var dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Sigurður var dæmdur fyrir að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 10. júlí síðastliðinn, ráðist á mann með eggvopni í heimahúsi með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut lífshættulega áverka og flytja þurfti hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Það er mat dómsins að árásarmaðurinn sé sakhæfur. Áfengisáhrif og lítilsháttar lyfjaáhrif á verknaðarstundu leysi hann ekki undan refsingu. Sigurður hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar en það hafði áhrif á niðurstöðu dómsins.

Brotið er afar alvarlegt en að mati dómsins sýndi Sigurður einbeittan brotavilja við verknaðinn. Fyrir liggur að hann fór frá heimili sínu með tvo hnífa að heimili brotaþola, í um eins og hálfs kílómetra vegalengd, þar sem hann réðst á brotaþola og beitti eggvopni margsinnis með heiftúðlegum hætti gegn honum og veitti honum lífshættulega áverka.

Í málinu liggur fyrir niðurstaða rannsóknarstofu vegna DNA-rannsóknar, sem gerð var á sýnum og samanburðarsýnum sem tekin voru af brotaþola og úr blettum sem fundust á haldlögðum fatnaði og hnífum hins seka. Læknar segja að árásin hafi verið heiftúðug og lífshættuleg.

Álit dómsins er sú að lögfull sönnun hefði fram komið fyrir því að Sigurður hefði ráðist á brotaþola á heimili hans og margsinnis stungið hann með þeim hnífum sem hann hafði með sér frá heimili sínu.

Nær fumlaus viðbrögð nærstaddra aðila, og þeirra sem á eftir komu, ásamt aðstæðum á vettvangi, eru sögð hafa orðið til þess að ekki fór verr. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×