Innlent

Einn í haldi eftir hnífstungu í Nes­kaup­stað

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá Neskaupstað þar sem hátíðin Eistnaflug fer fram um helgina. Yfirlögregluþjónn segir hnífstunguna ekki tengjast hátíðinni.
Frá Neskaupstað þar sem hátíðin Eistnaflug fer fram um helgina. Yfirlögregluþjónn segir hnífstunguna ekki tengjast hátíðinni. vísir/vilhelm
Einn er í haldi lögreglunnar á Austurlandi eftir hnífstungu í heimahúsi í Neskaupstað í nótt.

Jónas Vilhelmsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við fréttastofu að málið sé í rannsókn en sá sem varð fyrir árásinni var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík.

Jónas hefur ekki nánari upplýsingar um líðan hins slasaða en segist gera ráð fyrir að hann hafi gengist undir aðgerð í nótt.

Hann segir lítið vitað um málsatvik og von er á aðstoð frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tekin verður ákvörðun um það síðar í dag hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir hinum handtekna.

Rokkhátíðin Eistnaflug hófst í bænum í gær og tekur Jónas fram að atvikið tengist hátíðinni ekki á nokkurn hátt. Þar hafi allt farið friðsamlega fram eins og venjulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×